Á árinu 1987 kom út fyrsta bók mín um framkvæmd dómstóla á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Í bókinni var sagt frá 6 dómum Hæstaréttar, sem kveðnir höfðu verið upp á árunum 1983-1986, og áttu það sameiginlegt að hafnað hafði verið málflutningi um beitingu ákvæða úr mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, þó að öll málefnaleg rök hefðu mælt með þeim. Hafði ég sjálfur flutt flest þessara mála fyrir réttinum og teflt fram málsástæðum um þetta án árangurs.
Ég held ég megi segja að margir Íslendingar hafi furðað sig á þessum niðurstöðum Hæstaréttar svo augljós hafi málflutningurinn verið. Svo var að sjá sem mörgum landsmönnum mislíkaði þetta og brýnt tilefni væri til að bregðast við bókinni með endurbótum á ákvæðum í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og raunar á allmörgum öðrum ákvæðum kaflans sem þörfnuðust augljósra endurbóta. Varð bókin tilefni þess að flutt var á Alþingi frumvarp um nýjan og breyttan kafla stjórnarskrár um þessi efni. Þótti mér vænt um þennan árangur af efni bókar minnar, þó að þar hafi sjálfsagt mátt gera sumt betur. Svo fór samt að á árinu 1995 samþykkti alþingi nýjan kafla í stjórnarskrána um mannréttindi (lög nr. 97/1995). Þar voru m.a. tekin upp ný ákvæði um atriði sem ég hafði gert að umræðuefni í bók minni en ekki höfðu hlotið náð fyrir réttinum. Er enginn vafi á að bók mín hafði afgerandi áhrif við þessar réttarbætur, enda voru þar m.a. tekin upp ákvæði sem ekki hafði verið að finna áður í skránni. Sem dæmi má nefna rétt manna til að hafna aðild að félögum sem létu stjórnmál til sín taka og önnur sem kröfðust jafnréttis manna fyrir eignaskerðingum.
Í bók minni „Deilt á dómarana“ var, eins og áður sagði, fjallað um sex dómsmál þar sem hafnað hafði verið málflutningi um mannréttindi. Hér fer á eftir stutt frásögn af efni þeirra.
TVEIR DÓMAR UM TJÁNINGARFRELSI
Frjálst útvarp
Í október 1984 stóð yfir verkfall bókagerðarmanna sem og verkfall opinberra starfsmanna. Við þetta lagðist öll fjölmiðlun niður. Engin blöð komu út og ekkert var útvarpað, þar sem ríkið hafði á þessum tíma einkarétt á útvarpi og sjónvarpi. Þrír ungir menn (Kjartan Gunnarsson, Eiríkur Ingólfsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson) tóku þá að reka litla útvarpsstöð í Reykjavík, aðallega í því skyni að segja fréttir. Lögreglan stöðvaði útsendingar þessarar stöðvar og síðar voru fyrirsvarsmenn hennar ákærðir fyrir að hafa brotið gegn lögmæltum einkarétti ríkisins til útvarps. Þeir vísuðu til meginreglu um tjáningarfrelsi, sem þeir töldu að ætti ekki bara að gilda um tjáningu á prenti, eins og stjórnarskráin kvað á um, heldur einnig um aðra tjáningarhætti, svo sem útvarp. Einnig byggðu þeir á því, að einkaréttur ríkisins til útvarps hlyti að byggjast á þeirri forsendu að útvarpað væri og loks á því að neyðarástand hefði ríkt í landinu á sviði fjölmiðlunar þessa átakamiklu októberdaga, þegar lokað hafði verið fyrir alla fjölmiðlun. Hæstiréttur hafnaði vörnum þeirra og sakfelldi þá. Í framhaldinu voru gerðar breytingar á stjórnarskrá, þannig að tjáningarfrelsi var ekki lengur bundið við prent. Að auki var einkaréttur ríkisins til útvarps afnuminn skömmu eftir þessa atburði.
Spegillinn
Maður (Úlfar Þormóðsson) gaf út tímaritið Spegilinn. Í lok maí 1983 hóf hann dreifingu á blaði, sem ríkissaksóknari taldi að innihéldi klám og guðlast, svo að í bága færi við almenn hegningarlög. Hlutaðist hann til um að lögregla legði hald á öll tiltæk eintök af blaðinu sem hafði verið komið á dreifingarstaði. Hann leitaði ekki dómsúrskurðar, áður en ráðist var í þessa aðgerð. Hæstiréttur taldi þetta standast, þrátt fyrir að stjórnarskráin verndaði rétt manna til að tjá hugsanir sínar á prenti, sem menn yrðu þó að ábyrgjast fyrir dómi, og þar væri ritskoðun (fyrirfram tálmun á tjáningu) alveg sérstaklega bönnuð. Fyrir þessu voru ekki færð nein frambærileg rök. Niðurstaðan benti til alveg ótrúlegrar tregðu til að dæma mönnum þau réttindi, sem stjórnarskráin virtist klárlega vernda. Tekið skal fram að ég annaðist ekki flutning þessa máls, þó að ég gerði það að umræðuefni í bók minni.
TVEIR DÓMAR UM SKATTLAGNINGU
Kjarnfóðurgjald
Með lögum vorið 1983var heimilað að leggja allt að 200% (!) skatt á innflutt kjarnfóður. Í lögunum voru sett mjög matskennd og teygjanleg skilyrði fyrir heimildinni til að leggja skattinn á. Í stjórnarskránni var að finna skýr fyrirmæli um, að skattar verði ekki lagðir á nema með lögum. Fólst í þessu bann við því, að löggjafinn framselji skattlagningarvaldið til stjórnvalda. Landbúnaðarráðherra lagði á 33,3% skatt á grundvelli laganna um kjarnfóðurgjaldið. Framleiðandi, sem gert var að greiða þennan skatt, bar málið undir dómstóla. Byggði hann á því, að hið víðtæka framsal á valdi til skattlagningar, sem fólst í lögunum um kjarnfóðurgjaldið stæðist ekki stjórnarskrána. Hæstiréttur hafnaði þessum sjónarmiðum, án þess að færa fyrir því nokkur efnisleg rök að heitið gæti. Á því var einnig byggt í málinu, að við skattlagninguna væri mönnum mismunað á tvennan hátt. Í fyrsta lagi legðist skatturinn mjög þungt á búgreinar, sem notuðu kjarnfóður mikið til framleiðslu sinnar (kjúklingar, egg, svín) en létt á aðrar (svonefndar hefðbundnar greinar). Í annan stað stæðist ekki það millifærslukerfi sem komið hafði verið á fót, þar sem heimilað var að ráðstafa innheimtum skatti aftur til framleiðenda, ekki síst þeirra sem framleiddu sömu afurðir en með meiri tilkostnaði. Málið var dæmt, án þess að vikið væri einu orði að þessum málflutningi framleiðandans. Varð ekki betur séð en dómstóllinn hafnaði því, að veita borgurum þá vernd fyrir skattheimtu sem stjórnarskráin kvað á um. Við stjórnarsrárbreytingar 1995 voru ákvæði stjórnarskrár á þessu sviði styrkt til hagsbóta fyrir borgara.
Gengismunur
Þann 27. maí 1983 var gengi íslensku krónunnar fellt um 14,6%. Um leið voru sett lög, þar sem svo var mælt fyrir, að við skil til banka á gjaldeyri fyrir útfluttar sjávarafurðir, sem framleiddar væru fyrir 1. júní 1983, skyldi taka af honum 10% „gengismun“ og færa á reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum. Ríkisstjórnin skyldi kveða nánar á um, til hvaða afurða þetta tæki. Það var gert og voru sumar sjávarafurðir skattlagðar en aðrar ekki, án þess að skýrt væri hvaða sjónarmið lægju þar til grundvallar. Ekki var gefin út reglugerð um þetta; aðeins bréfleg tilkynning frá ríkisstjórn til Seðlabanka. Og ríkisstjórnin skyldi samkvæmt lögunum ráðstafa fénu „í þágu sjávarútvegsins og sjóða hans“. Engar reglur voru settar um þessa ráðstöfun og var fénu ráðstafað, án þess að séð yrði hvaða sjónarmið réðu. Árum saman höfðu verið sett svipuð lög við gengisfellingar. Fyrirtæki á Bakkafirði framleiddi blautverkaðan saltfisk og skreið til útflutnings, en ríkisstjórnin skattlagði þessar afurðir. Fyrirtækið vildi ekki una þessu og höfðaði mál gegn íslenska ríkinu til endurheimtu á skattinum. Byggði málssóknin meðal annars á því, að valdframsalið til ríkisstjórnarinnar væri víðtækara en stjórnarskráin heimilaði, auk þess sem með skattlagningunni væri brotið gegn jafnræði manna gagnvart skatti. Skatturinn væri þannig aðeins lagður á framleiðendur sjávarfangs en ekki til dæmis iðnaðarvara eða eigendur erlends gjaldeyris, en þessir aðilar hefðu líka haft hag af gengisfellingunni. Þar að auki væru ekki allir framleiðendur sjávarfangs skattlagðir, heldur aðeins sumir þeirra. Hæstiréttur hafnaði öllum þessum sjónarmiðum. Enginn viðhítandi rökstuðningur var gefinn fyrir niðurstöðunni. Virtust því ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd fyrir sköttum, a. m. k. á þessum tíma, lítils virði.
Eignarréttur í forsjá sveitarstjórna
Eigandi jarðar leigði hana manni sem nýtti jörðina án þess að taka sér búsetu á henni. Í ábúðarlögum voru ákvæði um að landeigendum, sem ekki ráku búskap sjálfir, væri skylt að leigja jarðir sínar hæfum umsækjendum. Væri frá þessu vikið hefði sveitarstjórn heimild til að ráðstafa jörð á þann hátt sem hagkvæmastur væri fyrir sveitarfélagið, eins og það var orðað. Í lögunum voru einnig ákvæði um, að leiguliða væri skylt að eiga lögheimili á ábúðarjörð sinni. Hús á jörðinni, sem fjallað var um í málinu, voru í niðurníðslu og lá fyrir að ekki væri unnt að setjast þar að nema með verulegum tilkostnaði við húsbyggingar. Sveitarstjórn og jarðanefnd neituðu að samþykkja byggingarbréf um jörð þessa, en samþykki þessara aðila var áskilið í lögum. Forsendur synjunar voru þær, að leigutakinn hygðist ekki flytja á jörðina. Höfðaði sveitarstjórnin síðan mál með kröfu um, að byggingarbréfið yrði dæmt ógilt. Jarðeigandinn taldi þetta brjóta gegn ákvæði stjórnarskrár um vernd eignarréttar, því ekki væri einungis verið að banna honum að ráða sjálfur eign sinni, heldur væri honum einnig skipað að stofna til mikilla útgjalda við að byggja upp húsakost jarðarinnar, án þess að líklegt væri að sú fjárfesting yrði arðbær. Meirihluti Hæstaréttar féllst á kröfu sveitarfélagsins og ógilti byggingarbréfið. Virtist stjórnarskrárvernd eignarréttarins ekki virt mikils við þessa niðurstöðu.
Minnihlutaatkvæði um félagafrelsi
Bónda var gert með heimild í lögum að greiða svonefnt búnaðarmálasjóðsgjald, sem var í reynd félagsgjald til búnaðarsambands og Stéttarsambands bænda. Hann taldi þetta brjóta gegn félagafrelsi sínu, sem hlyti að fela í sér réttinn til að ákveða sjálfur í hvaða félögum maður væri. Í dómsmáli, þar sem á þetta reyndi, benti hann meðal annars á, að þessi félög væru í reynd pólitísk félög, sem reglulega á fundum sínum ályktuðu um dæmigerð pólitísk ágreiningsefni, svo sem um framleiðslustjórn á búvörum með valdboði á borð við skattaálögur á aðföng og framleiðslukvóta. Meiri hluti Hæstaréttar dæmdi málið á öðrum grundvelli en þessum og þurfti því ekki að taka afstöðu til sjónarmiða bóndans um félagafrelsi. Tveir dómarar í minnihluta fjölluðu hins vegar um þetta og töldu það standast að leggja félagahelsi þetta á bónda. Fyrir því höfðu þeir engin efnisleg rök að heitið gæti. Síðan þessi dómur gekk, hefur margt gerst á þessu sviði. Við stjórnarskrárbreytingar 1995 var þannig sett inn regla, sem beinlínis verndar rétt manna til að standa utan félaga.
__________
Það er auðvitað ánægjuefni fyrir málflytjanda að sjá svona breytingar gerðar á stjórnarskránni fyrir tilverknað málflutnings hans þágu réttinda sem ekki var fallist á þó að þau mætti telja sjálfsögð í ríki sem taldi sig virða mannréttindi. Er svo að sjá að sumir laganna smiðir hafi ekki áttað sig á tilefni því sem framangreind dómsmál gáfu við lagabreytingarnar 1995 og er þetta greinarkorn því skrifað til upprifjunar á þessu.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur